Desember 2025
Daman - 8. January 2026
Desember var einn busy en mjög skemmtilegur mánuður.
Daníel byrjaði í nýrri vinnu 1.desember hjá fyrirtæki sem heitir Digisense og er staðsett í Risskov þannig hann er svona 20 mín með strætó. Ég held það væri klókt að Daníel sjálfur útskýri hvað felst í fyrirtækinu svo hér er hans lýsing og so far reynsla:
"Digisense var semsagt upphaflega stofnað til að straumlínulaga úrvinnslu rafrænna reikninga í fyrirtækjarekstri, og var fyrsta vara þeirra hugbúnaðarlausn sem kemur í veg fyrir tvíverknað í gagnafærslu, en það hefur vaxið töluvert síðan. Í dag sérhæfir það sig í smíðum á stafrænum innviðum, sem og viðbótum við ákveðin bókhaldskerfi sem ekki standast dönsk lög ‘out of the box’, auk þess að sinna ennþá upprunalegu starfseminni. Fyrirtækið sjálft er ekki fjölmennt, og ég var því ráðinn inn sem svokallaður ‘full-stack’ forritari (í raun bara alhliða-forritari) þar sem verkefnum hafði fjölgað framúr þeirri getu sem þeir réðu við í þáverandi mynd. Mitt hlutverk er nokkuð svipað því sem ég hef áður sinnt, en viðfangsefnið talsvert frábrugðið því sem ég hef unnið við síðustu ár. Þar sem ég hef aðeins verið rúman mánuð í starfi er erfitt að gefa áreiðanlegt álit, en hingað til hefur mér líkað mjög vel. Mesta áskorunin er án efa tempó-breytingin; það var smá sjokk að fara úr 50-og-eitthvað manna hugbúnaðarsviði yfir í 3 manna forritunarateymi, en það er strax farið að venjast. Verkefnin eru spennandi, fyrirtækið virðist vera á skemmtilegri leið, og kollegarnir hafa hingað til virkað eins og besta fólk. Skrifa kannski uppfærslu þegar lengra er liðið á starfstíma minn þarna."
Ég kláraði loksins munnlega dönskuprófið og tókst að fá 12 þar! Ég var þá bara jæja núna byrja ég að tala dönsku á Skor og ég geri það alltaf þegar ég vinn ein en er líka byrjuð að gera það þegar ég vinn með sumum. Babysteps gott fólk babysteps.
Við fórum svo út að borða til að fagna: nýjum vinnum, afmæli, nýrri íbúð og loknum dönskuskóla. Staðurinn heitir St. Paul‘s Apothek og ég færi allan daginn aftur þangað fyrir kokteila en ekkert endilega matinn. Hann var alveg góður þannig en kokteilarnir betri, enda er þetta aðallega kokteilastaður.
Hafdís og Bosko komu svo í kaffi en það voru eiginlega launin þeirra fyrir að koma að hjálpa okkur að hengja upp ljós. Við þurfum svo fljótlega að fara múta þeim með dinner eða einhverju álíka til að fá smá aðstoð við að hengja upp allar myndirnar okkar (við kunnum að hengja upp, bara ekki að gera það beint). Um kvöldið var svo julefrokost með Skor en Daníel hafði farið á föstudeginum með vinnunni sinni í julefrokost og djammið þeirra endaði meira segja á Skor þegar ég var að vinna þannig ég hitti suma af vinnufélögum hans.
Írena og Sofie komu til okkar að baka smákökur en það var eiginlega svona eina Jóla sem við gerðum. Fyrir utan það að labba og sjá jólaljós úti.
Svo var það mál málanna – Ísland 19.-2.jan.
Við vorum með 3 ferðatöskur, 2 flugfreyjutöskur og 2 bakpoka. Við ætluðum að taka taxa en hann var svo stopp í umferð þannig hann bara cancelaði okkur. Við náðum að taka troðinn letbahn með þetta allt og ná flugvallarrútunni. Smá caos en þetta náðist. Borguðum okkur inn á loungið og höfðum það notalegt á vellinum.
20.des fór ég út á Álftanes í ræktina og sund með mömmu og Söru. Svo dobblaði ég Söru til þess að laga neglurnar mínar en ég hafði ekki alveg náð að koma því sem mig langaði í til skila hjá naglagæjanum. Þá er gott að eiga svona flinka systur. Og ég fékk íslenskan bakarísmat! Um kvöldið fór ég á Julevenner Emmsjé Gauta með Hönnu Rakel og Siggu Ruth og við getum sagt að ég drakk of mikið. Þannig að ég bara drakk ekki neitt það sem eftir var ferðarinnar fyrr en tæplega 2 drykki á áramótunum.
21. des fórum við í jólaboð heima hjá tengdamömmu og Binna. Geggjaðar veitingar og jólasveinn og alles. Versta var bara að það áttu að vera 5 börn en það endaði bara að vera 1 barn sem var ekkert endilega að elska jólasveininn haha. Ég fór svo út á Álftanes í laufabrauðsgerð hjá ömmu og Daníel fór að hitta vini sína niðri í bæ.
22.des fórum við að hitta Daníel Loga, Stebba og Dísu og þar fékk ég aftur íslenskan bakarísmat! Um kvöldið var svo Sörubakstur heima hjá tengdapabba.
23.des klippti Guðrún þónokkur grömm af hárinu á mér. Svo fór ég heim til Maríu og hitti þar líka Hildi. Um kvöldið fórum við með tengdapabba, Kjartani, Hafdísi og Bosko á Nauthól og svo á Bubba. Og ómægad ég skal sko segja ykkur að við munum seint gleyma þessari veitingastaðareynslu. Ekki út af matnum heldur út af þjónustunni. Við héldum án gríns á tímabili að við værum í falinni myndavél. Þjónarnir voru bara unglingar sem voru að reyna sitt besta en það var bara ekki gott hjá greyjunum. Ætla bara að stikla á stóru: Fengum engan drykkjarseðil, þau skildu ekki hvernig matseðillinn virkaði, settu ekki skeiðar á borðið fyrir súpuna, settu lokaða rauðvínsflösku á borðið, vissu ekki hvaða mat við vorum á fá (hann kallaði paté „kæfa í brauði“) og klúðruðu fjögurra hamborgarapöntun á næsta borði. Þetta var mesti brandari sem við höfum lent í á veitingastað og við rreyndum okkar besta að halda facei og vera kurteis en þetta er bara ekki alveg málið þegar maður borgar 18 þúsund á mann fyrir matinn. Svo var Bubbi líka ekki alveg eins og maður bjóst við, margt mjög gott við tónleikana en hann tók t.d. Stál og hnífur í svona mexíkóskri útgáfu, það var eeekki málið. Þetta kvöld var allavega já eftirminnilegt.
24.des er alltaf busy hjá okkur. Byrjuðum í hádeginu í möndlugraut hjá móðurömmu og afa Daníels. Ég fór svo út á Álftanes til mömmu og Sigga í jólapott og borðaði jólamatinn þar, svo náði ég í Daníel upp í Breiðholt en hann borðaði þar og við fórum aftur út á Álftanes og svo fórum við inn í Garðabæ til Pabba og Guðrúnar og svo enduðum við aftur uppi í Breiðholti. Langur en alltaf svo góður dagur.
25.des þá byrjuðum við hjá föðurömmu og afa Daníels í jólaboði og svo fórum við út á Álftanes í jólaboð hjá ömmu.
26.des var jólakaffiboð heima hjá mömmu og Sigga og svo hjálpaði ég Söru að gera afmælisköku.
27.des fórum við í kaffi til tengdamömmu og Binna. Um kvöldið mættum við Daníel í tvítugsafmæli hjá Söru og guð minn hvað mér fannst við vera gömul þarna hahaha. Í huganum mínum er ekki svo langt síðan við vorum 20 en þarna fann maður alveg fyrir öllum 7 árunum. En það var samt gaman!
28.des eiga bæði Sara og Kjartan afmæli. Ég rúllaði út á Álftanes til að gefa Söru pakka og borða með henni bröns. Seinnipartinn keyrðum við Daníel svo á Botn í svartamyrkri og fáranlega þykkri þoku. Við vorum 2 nætur og það var alvöru afslöppun, 30.des komu Ómar og Alda í kaffi og svo keyrðum við heim um kvöldið.
31.des fékk ég loksins Subway og ég gerði tvöfalda uppskrift af ostaköku fyrir desert kvöldsins. Við borðuðum svo í Breiðholtinu, keyrðum svo út á Álftanes fyrst heim til mömmu og Sigga þar sem öll hennar fjölskylda var og svo heim til Ástu og sigga þar sem pabbi, Guðrún og amma voru líka, eftir miðnætti keyrðum við svo aftur upp í Breiðholt. Þar var ég að spila með frændum hans og fékk mér fyrsta drykkinn síðan 21.des haha.
1.jan fékk ég afganga heima hjá mömmu og Sigga og við fórum í nýárspott. Ég fékk Söru til að stytta neglurnar mínar mikið af því ég bæði var orðin þreytt á þeim og ég gat ekki farið að vinna á leikskóla með þessar klær. Við Daníel tókum svo kveðjuhring þar sem við stoppuðum stutt á hverjum stað og köstuðum knúsi á fólk. Við þurftum svo að pakka en það var hægara sagt en gert með allar gjafirnar og við (ég) vildum taka svo marga hluti úr geymslunni okkar. Daníel á allan heiðurinn á því að koma öllu í töskurnar og það komst allt heilt á áfangastað!!
2.jan keyrðum við að skila tölvunni hans Daníels á skrifstofu Icelandair og á bakaleiðinni þurfti ég að sjálfsögðu að stoppa í Bæjarbakaríi! Við fórum svo bara fljótlega upp á völl og inn á loungið þar sem við höfðum keypt okkur Saga miða heim. Það er alltaf jafn næs og maður finnur ekki fyrir því að maður sé í flugi. Rétt misstum svo af fyrri rútunni en hún var líka full þannig við biðum bara og horfðum á pílu. Svo þegar við lentum í Aarhus gleymdum við næstum einni tösku en við náðum að ná í hana. Það var mjööög næs að koma heim eftir svona busy en sjúklega góða og skemmtilega jólaferð.



















































































































































