Önnur heimsókn og bara lífið
Daman - 27. September 2023
Jæja frekar langt síðan ég skrifaði síðast þannig ég er að fara að skrifa bara út frá myndum því ég man ekki neitt.
Byrjum bara á því að Elísabet og Andrea eru komnar með hjól en þær eru ekki að nota þau eins og er því það eru komnir kóngulóarvefir á þau. Við Dmg erum ekki enn búin að fá okkur hjól því við erum ekki enn búin að finnast við þurfa þau, kannski þegar fer að kólna nennum við síður að ganga og fáum okkur hjól – aldrei að vita.
Við Elísabet og Andrea fórum á McDonalds í fyrsta sinn hérna úti og það er bara klassískt en ég held ég fari helst aftur bara til að fá mér McFlurry því ég sakna bragðarefs rosa mikið.
Eina helgina fórum við Daníel, Elísabet og Andrea niður í bæ en fyrst buðum við þeim í Mango Chutney kjúkling til okkar. Þetta er uppáhalds rétturinn minn sem Daníel gerir og stelpunum fannst hann ansi góður en ég veit að þær eru búnar að gera hann sjálfar tvisvar síðan þá. Niðri í bæ settust 2 félagar hjá okkur og enduðum við með þeim allt kvöldið. Elísabet og Andrea fóru svo heim en við Dmg héldum áfram með þessum gæjum og ég var greinilega að reyna að halda í við þá og Daníel eða eitthvað því ég tók skot þegar þeir tóku og svona sem endaði í því að ég drakk alltof mikið... Þegar við komum heim var ég þá bara inni á baði í svona 2 tíma og Daníel besti sat inni í sturtu að borða pringles á meðan. Morguninn eftir var líka ónýtur og veit ég allavega núna að ég ætla að halda mig frá skotum.
Helgina eftir komu Gummi og Magga – tengdapabbi og konan hans en þau komu á föstudegi og fóru á mánudagsmorgni til Ítalíu. Þau komu með tösku með allskonar dóti sem við höfðum skilið eftir á Íslandi sem var mjög næs en svo var ótrúlega krúttlegt umslag og gjöf sem fylgdi með. Stelpurnar sem ég var að þjálfa höfðu skrifað bréf og látið fylgja með útprentaðar og plastaðar myndir sem mér þykir ótrúlega vænt um.
Á föstudeginum fórum við út að borða á mjög fínan stað sem heitir Syv Ni 13. Þar fengum við 7 rétta matseðil með allskyns mat en hann er sjúklega góður. Við Dmg fórum á þennan stað um páskana þegar við komum hingað og við mælum svo sannarlega með honum.
Á laugardeginum fórum við í Botanical garden sem er á vegum háskólans og er mjög pretty. Það eru plöntur frá öllum heimshornum og svo er hápuntkurinn fiðrildin. Svo mikið af fallegum fiðrildum. Þetta er frítt og ótrúlega næs að ganga í gegn. Get sérstaklega ímyndað mér að fara þarna inn í vetur til að upplifa hlýju aftur. Við héldum svo áfram að túristast með þeim og fórum í Gamla bæinn. Þar eru allskyns hús og munir frá mismunandi tímabilum í Danmörku. Síðan fórum við í Bambagarðinn eða dádýragarðinn fyrir þá sem vilja hafa þetta rétt. Þar var svo mikið af sætum dádýrum!! Okkur hefur langað að fara lengi en við höfum ekki lagt í það því hann er smá í burtu en þau voru með bílaleigubíl þannig þetta var bara næs. Ég fékk þau svo til að hoppa í Ikea með mér að kaupa nokkra hluti en ég vil meina að þetta hafi verið hraðamet í Ikea hjá mér. Við komum svo hingað heim í íbúð og gengum öll saman í búðina að kaupa í matinn. Daníel eldaði svo aftur sama mango chutney rétt og hann gerði helgina áður en þetta er bara svo góður réttur til að bjóða upp á.
Á sunnudeginum fórum við með þau á ArOS safnið en við vorum að fara á það í þriðja sinn. Það sem er samt ótrúlegt er að upplifunin var mismunandi í hvert skipti sem við fórum þangað. Sem dæmi – öll þurrkuðu blómin sem mér finnst alltaf svo pretty að ég las loksins um verkið og þetta eru blóm sem fundust á fjöldagröfum og á hverri blómamynd stendur hve margir voru grafnir í gröfinni. Við fengum okkur að borða á asískum stað og röltum svo í gegnum háskólagarðinn. Við keyrðum svo á smábátahöfnina og fengum okkur ís, held ég hafi slegið hraðamet hjá sjálfri mér að borða ís og gerði það á ferð því ég var að flýja geitunga. Um kvöldið fórum við á ítalskan stað þar sem maður klippir pizzurnar með skærum. Þetta var loka máltíðin með þeim og fyrirfram afmælismatur fyrir Dmg því hann átti afmæli daginn eftir. Við þökkum þeim kærlega fyrir komuna en það var ótrúlega gaman að hafa þau.
Hann Daníel okkar allra besti átti svo afmæli mánudaginn 18.september. Hann er orðinn 25 ára maðurinn. Hann námundast upp í þrítugt núna! En ég niður í tvítugt heh (í nokkrar vikur í viðbót). Hann er ekki í tíma fyrr en 12 á mánudögum þannig hann gat fengið sér kaffi í afmælisbollann frá mömmu sinni og opnað pakka í rólegheitum. Fun fact að dönsku fánarnir sem ég hengdi upp á vegg hanga enn uppi og ég held þeir verði bara þar því það verður svo tómlegt ef við tökum þá niður. Hann valdi sushi í kvöldmat svo við pöntuðum það og áttum bara kósý kvöld en við tökum fancy dinner seinna.
Annars er bara allt gott að frétta. Alltaf jafn ótrúlega mikið að gera hjá honum í vinnunni og skólanum. Ég dunda mér alla daga við að taka til, hreyfa mig, chilla og hitta stelpurnar. Reyndar var ég að fá einhvern póst um að ég væri að fara fá svar frá dönskuskólanum. Ég þarf samt eitthvað að skoða þetta aðeins því ég veit ekki hvenær þetta er kennt og þetta er mjög strangt með að missa af tímum og þannig og ef þetta er yfir jólatímann að þá veit ég ekki alveg hvað ég geri... Gef update af því þegar kemur af því.
Annars bara til hamingju með að hafa nennt að lesa allt.
Takk og bless.